Ferill 1013. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2251  —  1013. mál.




Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Bryndísi Haraldsdóttur um ráð, nefndir, stjórnir, starfshópa og stýrihópa.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvað voru á árinu 2022 stofnaðar margar nýjar nefndir, stjórnir, ráð, stýrihópar eða starfshópar sem heyra undir ráðuneytið og hver er áætlaður kostnaður vegna þeirra?

    Á árinu 2022 var skipað í 16 nýja starfshópa, stýrihópa og nefndir í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu og auk þess var skipað í eina nefnd sem skipuð er árlega. Þá var endurskipað í lögbundna verkefnisstjórn um stefnumarkandi landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum, lögbundið mengunarvarnaráð hafna og lögbundið fagráð Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn á árinu 2022. Einnig var skipað í nýtt lögbundið þjóðgarðsráð fyrir Snæfellsjökulsþjóðgarð. Ekki liggur fyrir heildarkostnaðaráætlun vegna hópanna en beinn kostnaður vegna þeirra átta hópa sem luku störfum á árinu 2022 var samtals 20.157.190 kr.
    Samtals hafa tíu hópar lokið störfum það sem af er kjörtímabilinu og eru það:
          Starfshópur um gerð grænbókar um stöðu og áskoranir í orkumálum – Staða og áskoranir í orkumálum með vísan til markmiða og áherslna stjórnvalda í loftslagsmálum, mars 2022.
          Starfshópur um raforkuöryggi.
          Starfshópur um þjóðgarða og friðlýst svæði – Þjóðgarðar og önnur friðlýst svæði, staða og áskoranir, nóvember 2022.
          Starfshópur um endurmat á kerfi framlengdrar framleiðendaábyrgðar hér á landi.
          Starfshópur um vindorkuver á hafi í lögsögu Íslands – Vindorka, valkostir og greining, apríl 2023.
          Starfshópur um innleiðingu hringrásarhagkerfis – 200 þúsund tonn af tækifærum.
          Starfshópur um eflingu samfélagsins á Vestfjörðum – Skýrsla starfshóps um eflingu samfélagsins á Vestfjörðum, júní 2023.
          Hæfnisnefnd vegna ráðningar í embætti skrifstofustjóra skrifstofu eftirfylgni og fjármála.
          Nefnd um umhverfisviðurkenningu ráðuneytisins (árlegt).
          Valnefnd vegna ráðningar í embætti forstöðumanns úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.
    Tveir stýrihópar hafa verið skipaðir í embættistíð ráðherra. Stýrihópur um eflingu umhverfis- og loftslagsvænna nýfjárfestinga – Græni dregillinn var skipaður í tíð núverandi ráðherra. Ákvörðun um skipan stýrihóps vegna verndarsvæðis Breiðafjarðar var tekin af fyrrverandi umhverfis- og auðlindaráðherra, en lokið var við skipan í stýrihópinn í tíð núverandi umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
    Þá hefur einn samráðshópur um fráveitur verið skipaður. Ákvörðun um skipan samráðshópsins var tekin af fyrrverandi umhverfis- og auðlindaráðherra, en lokið var við skipan í samráðshópinn í tíð núverandi umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
    Skipuð hefur verið ein stjórn samráðsvettvangs um þekkingarsköpun vegna áhrifa loftslagsbreytinga.
    Eftirfarandi starfs- og stýrihópar sem skipaðir hafa verið það sem af er kjörtímabilinu eru enn að störfum:
          Starfshópur um málefni vindorku.
          Stýrihópur vegna landsáætlunar um aðlögun að loftslagsbreytingum.
          Starfshópur um endurskoðun á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.
          Starfshópur um stöðu minjaverndar.
          Starfshópur um endurnýjanlegt eldsneyti fyrir flugvélar.
          Starfshópur um tillögur um framgang mála sem heyra undir málefnasvið umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins og stuðlað geta að eflingu samfélagsins í Vestmannaeyjum.
          Starfshópur um aðra orkukosti.
          Starfshópur um þátttöku íslenskra fyrirtækja og ríkisins á mörkuðum með kolefniseiningar.
          Starfshópur um orkumál og friðlýsingarkosti á Langanesi.